Grímur Sæmundsen

„Fordæmalaust ár er að baki. Engan óraði fyrir því sem koma skyldi í upphafi ársins. Nú rúmu ári síðar erum við reynslunni ríkari.“

Fordæmalaust ár er að baki. Óvægin ytri skilyrði svo sem slæm færð og veður, jarðhræringar og veirufaraldur á heimsvísu litaði allan rekstur félagsins á síðasta ári. Engan óraði fyrir því sem koma skyldi í upphafi ársins. Nú rúmu ári síðar erum við reynslunni ríkari. Það sem uppúr stendur stendur er þrautseigja og jákvæðni, sveigjanleiki og fagmennska alls okkar starfsfólks sem hefur staðið sem klettur með fyrirtækinu í gegnum mikla óvissu og mjög erfitt rekstrarumhverfi á undanförnu ári.

Árið 2019 var ár skilvirkni í rekstri, hagræðingar og undirbúnings frekari markaðssóknar með húðvörur félagsins. Á síðasta ári héldum við áfram á þessari vegferð, eins og tök voru á. Við fjárfestum í mörgum umbótaverkefnum, t.d. var farið í töluverðar viðhaldsframkvæmdir á mannvirkjum á þeim tímum sem lokað var, við héldum áfram uppbyggingu á innviðum í upplýsingatækni og stafrænni þróun og áfram var unnið að undirbúningi markaðssóknar húðvara okkar.

„Þessi umbótaverkefni gerðu okkur m.a. kleift að verja störf þrátt fyrir lokanir en meðalfjöldi stöðugilda hjá Bláa Lóninu nam 431 á síðasta ári.”

Í upphafi þessa árs var svo ný húðvörulína kynnt til sögunnar á erlendum mörkuðum undir vörumerkinu BL+. Vörulínan byggir á nýju Blue Lagoon innihaldsefni BL+ COMPLEX, sem nýtir einkaleyfi Bláa Lónsins hf. á þörungum og kísli en til grundvallar liggja yfir 30 ára rannsóknir fyrirtækisins á jarðsjónum og nýsköpun á sjálfbærri þróun. Þá hafa þessar vörur þegar verið COSMOS NATURAL vottaðar sem styrkir stöðu varanna á markaði m.t.t. sjálfbærni og rekjanleika. Við erum mjög spennt að sjá hvernig þessari nýju vörulínu vegnar á næstu misserum.

Þrátt fyrir lokanir í um 6 mánuði á síðasta ári auðnaðist okkur að hafa opið frá 19. júní fram til 8.október s.l. Á þeim tíma var lögð áhersla á að bjóða íslenskum gestum að upplifa einstaka gestrisni og þjónustu starfsmanna Bláa Lónsins. Það má segja að Bláa Lónið hafi með þessu endurnýjað kynni sín við íslenska markaðinn. Það var gott að geta tekið á móti íslenskum gestum í auknum mæli og að finna fyrir aukinni jákvæðni þeirra í garð félagsins sem m.a. sýndi sig á fjölda mynda sem gestir deildu á samfélagsmiðlum.

„Markmið Bláa Lónsins er að styrkja enn frekar samband sitt við heimamarkaðinn á komandi árum.“

Alls sótti um 13% landsmanna Bláa Lónið heim á þessu tímabili. Á sama tíma og Íslendingum fjölgaði í Bláa Lónið var horft til þess að koma í auknum mæli til móts við þá með aðlöguðu vöruframboði. Í því samhengi má nefna sölu á gjafabréfum og ýmis konar tilbúnum pökkum. Aukinn áhugi Íslendinga á vörum okkar og upplifunum varð til þess að nú í upphafi árs var tekin ákvörðun um að opna nýja verslun í Kringlunni – Veröld Bláa Lónsins – í byrjun apríl nk. og ná þannig enn betri nálægð við íslenska markaðinn en áður. Markmið Bláa Lónsins er að styrkja enn frekar samband sitt við heimamarkaðinn á komandi árum.

Jarðhræringar á Reykjanesi undanfarnar vikur og nú síðast eldgos í Geldingadölum hefur ekki valdið okkur neinum búsifjum til þessa og vísindamenn telja nú að ekki stafi hætta af eldgosinu að byggð á Reykjanesi.

Við höldum því okkar striki til undirbúnings viðspyrnu rekstrar félagsins á öllum sviðum í þeirri trú að okkur og viðskiptalöndum okkar takist að snúa niður hornin á covid – 19 faraldrinum á næstu mánuðum með þeim hörðu sóttvarnaaðgerðum, sem gilda munu næstu vikur og vaxandi krafti í bólusetningum gegn veirunni.

Við nálgumst hinn bakka árinnar með hverjum degi sem líður.

Start typing and press Enter to search