Einstök upplifun í einu af 25 undrum veraldar
Árið 2020 byrjaði afar vel í Bláa Lóninu þrátt fyrir þrálát óveður og ófærð í janúar og febrúar. En Bláa Lónið lokaði fyrst þann 19. mars vegna Covid-19 og svo aftur þann 8. október, bæði vegna lokunar landamæra og samkomutakmarkana. Samtals var Bláa Lónið lokað í u.þ.b. 6 mánuði á árinu 2020.
Einstök þjónustumenning og gestrisni starfsmanna Bláa Lónsins var afar vel tekið af Íslendingum á árinu sem létu ánægju sína í ljós við starfsmenn og á samfélagsmiðlum í sumar. Þá kunnu þeir ekki síður að meta þá sérstæðu og einstöku upplifun sem Retreat Spa hefur upp á að bjóða. Íslendingar voru meirihluti gesta en þó jókst fjöldi erlendra gesta nokkuð síðsumars.
Horft inn á við og ferlar rýndir
Samhliða vöruþróun voru ýmis ferlamál skoðuð, aðlöguð og bætt með þarfir og upplifun gesta okkar í huga. Í því samhengi má nefna ferlamál tengd innleiðingu nýrra aðgangshliða í þeim tilgangi að einfalda flæði sem og að koma í veg fyrir þrengsli við afgreiðslu. Þá voru ferlar sem tengjast sturtu- og gufusvæðum bættir með það að markmiði að bæta enn frekar yfirbragð heilsulindarinnar.
Uppákomur, sögustundir og tónverk voru kynnt og spiluð í sérstökum slökunarherbergjum þar sem gestum gafst kostur á að slaka á innan um hraunkletta og horfa á vatnsdropa gára stór glerloft í rýminu. Einstök upplifun í takt við umhverfið.
Retreat Spa
Retreat Spa er einstakt upplifunarsvæði sem á sér engan líka á Íslandi. Svæðið er ætlað bæði hótel- og daggestum. Um 20 þúsund daggestir sóttu Retreat Spa á árinu 2019 auk hótelgesta og má því gera ráð fyrir að Retreat Spa hafi samtals tekið á móti um 43 þúsund gestum á árinu.
Daggestir fá aðgang að einkaklefa og er öll þjónusta og umgjörð afar fáguð og áhersla lögð á næði gesta með því að tengja saman einstakt umhverfi og eiginleika jarðsjávarins. Gestir geta notið dvalarinnar í fjölbreyttum slökunarrýmum, gufuböðum og í sérstöku baðlóni sem er eingöngu ætlað gestum á Retreat Spa og Retreat hótel. Boðið er upp á fjölbreyttar meðferðir í Retreat Spa s.s. nudd, snyrtimeðferðir og slökunarflot. Þá komast gestir í nána snertingu við grunninnihaldsefni Bláa Lónsins á svokölluðu Blue Lagoon Ritual rými.