Umbætur á óvissutímum

Þegar ljóst var að Bláa Lónið yrði lokað stóran hluta ársins var ákveðið að nýta tímann og fjárfesta í ýmsum umbótaverkefnum eins og hægt væri. Markmið þessara aðgerða var og er að gera félagið betur í stakk búið þegar að viðspyrnunni kemur. Lögð var áhersla á markaðssókn og þróun húðvara Bláa Lónsins, umbætur á upplifunarsvæðum Bláa Lónsins, fjárfest í innviðum upplýsingakerfa og stafrænum lausnum með það að markmiði að efla þjónustuframboð og hagræðingu í rekstri.

Markaðssókn á erlenda húðvörumarkaði

Dótturfélag Bláa Lónsins hf., Bláa Lónið Heilsuvörur ehf., annast framleiðslu, sölu og markaðssetningu húðvara undir vörumerkjum félagsins, Blue Lagoon Iceland og BL+.

Á árinu 2020 hófst undirbúningur að aukinni markaðssókn á erlendum húðvörumarkaði, þar sem áhersla var lögð á markaðssetningu á netinu og markaðssókn í Bandaríkjunum. Húðvöruteymið var eflt á árinu bæði með ráðningu nýrra starfsmanna til félagsins og samningum við sérfræðinga erlendis. Þróað var nýtt stafrænt verslunarumhverfi með rauntímatengingum við vöruhúsakerfi og upplýsingakerfi Bláa Lónsins hf. ásamt því að unnið var að bestun allra ferla er viðkoma netverslun. Tvær nýjar vefverslanir fóru í loftið í haust, annars vegar á Bandaríkjamarkaði og hins vegar í Evrópu. Sett voru upp ný vöruhús í Bandaríkjunum og Hollandi.

Ný húðvörulína, BL+ kynnt til sögunnar

Sem hluti af aukinni markaðssókn var ný „premium“ húðvörulína þróuð undir nýju vörumerki Bláa Lónsins hf., BL+. Vörulínan byggir á nýju Blue Lagoon innihaldsefni, BL+ COMPLEX, sem nýtir einkaleyfi Bláa Lónsins hf. á þörungum og kísli, yfir 30 ára rannsóknir fyrirtækisins á jarðsjónum og nýsköpun í sjálfbærri þróun.

BL+ húðvörulínan er þróuð sérstaklega til að vinna gegn öldrunareinkennum húðar og styðja við heilbrigði hennar. Húðvörulínur fyrirtækisins eru því orðnar þrjár: BL+ by Blue Lagoon Iceland, Blue Lagoon Iceland Spa & Wellness og Blue Lagoon Iceland Dermatological.
Tvær nýjar húðvörur undir vörumerki BL+ hafa verið þróaðar: The Serum og Eye Serum. Fleiri nýjar vörur eru væntanlegar á markað síðari hluta ársins.

BL+ vörur Bláa Lónsins leiðandi í umhverfisvernd með COSMOS NATURAL vottun

BL+ vörurnar eru COSMOS NATURAL vottaðar af Ecocert Greenlife og BL hráefni hafa verið samþykkt af COSMOS sem styrkir stöðu okkar á markaði sem hreinar vörur, sem byggja á sjálfbærni og rekjanleika. COSMOS (Cosmetic Organic and Natural Standard) er alþjóðlegur snyrtivörustaðall með ríka áherslu á umhverfisvernd í framleiðsluháttum snyrtivara, allt frá ábyrgri nýtingu auðlinda til notkunar umhverfisvænna umbúða og þrifefna, ásamt því að tryggja bestu gæði innihaldsefna í snyrtivörum með velferð neytenda og náttúrunnar í huga. Stöðugt er unnið að umbótum og nýjum umhverfisvænum leiðum, sem dæmi þá erum við markvisst að draga úr notkun á plasti í umbúðum, allur pappír sem notaður er í húðvöruumbúðir er FSC vottaður. Stefnan er að allar húðvörur fyrirtækisins verði COSMOS NATURAL vottaðar.

Bláa Lónið Heilsuvörur ehf. er með ISO 9001 vottað gæðakerfi og er hráefnaframleiðsla félagsins ISO 22716 vottuð (Cosmetics – Good Manufacturing Practices). Staðallinn leiðbeinir um góða framleiðsluhætti í framleiðslu á snyrtivörum – að framleiðsla og prófanir á séu ávallt í samræmi við gæðakröfur sem hæfa notkun viðkomandi vöru eða hráefnis. Bláa Lónið Heilsuvörur ehf. framleiðir Blue Lagoon hráefnin úr jarðsjó Bláa Lónsins í Rannsókna- og þróunarsetri Bláa Lónsins. Bláa Lónið Heilsuvörur ehf. er einnig í samstarfi við framleiðendur í Frakklandi og Danmörku um framleiðslu húðvara og eru þeir einnig vottaðir samkvæmt ISO 9001, ISO 22716 og COSMOS.

„Í Svartsengi rekur Bláa Lónið um 22 þúsund fm² af fasteignum og um 12 þúsund fm² af lónum“

Umbótaverkefni á upplifunarsvæðum

Mörg umbótaverkefni á upplifunarsvæðum Bláa Lónsins áttu sér stað á árinu á þeim tímum sem lokað var. Meðal annars var farið í úrbætur á framleiðslusvæðum í tengslum við ISO vottun á snyrtivörum. Silica hótelið fékk andlitslyftingu, bæði að utan og innan, þar sem pallar voru endurnýjaðir og nýjar innréttingar smíðaðar svo eitthvað sé nefnt.

Farið var í töluverðar framkvæmdir á húsnæði Bláa Lónsins að utanverðu sem hefur gjörbreytt ásýnd byggingarinnar auk þess sem lýsing var bætt. Úrbætur voru gerðar í móttöku Bláa Lónsins sem bættu ásýnd, ferla og flæði gesta. Loftagrindum í móttöku og við búningsklefa var skipt út fyrir loftadúk sem jók til muna birtu á svæðinu og bætir hljóðvist til muna.
Á sama tíma var allt húsnæði Retreat og Retreat Spa yfirfarið og viðhald tryggt.

Í lóninu sjálfu var steyptur sérstakur veggur við veitingasvæði og aðstaða bætt. Jarðsjávarkerfin og dælustöð voru yfirfarin, bætt og hreinsuð. Kerfin standa afar vel og eru í góðu ásigkomulagi. Þá voru kláraðar framkvæmdir á svæðinu sem snéru að ásýnd og tilfærslu affallsrása.

„Stafrænni vegferð félagsins afar vel tekið“

Umbylting á innviðum í upplýsingatækni

Vegferð Bláa Lónsins í stafrænni þróun tók miklum breytingum á liðnu ári en mikið hefur verið lagt upp úr stafrænum verkefnum á öllum sviðum með tilliti til hagræðingar í rekstri, þjónustuframboðs og nýtingu á nýjustu tækni.

Á árinu var þróuð sjálfsafgreiðslulausn fyrir gesti á vef félagsins sem gengur undir nafninu MyBlueLagoon. Á síðasta ári nam fjöldi sjálfsafgreiðslna í gegnum þessa nýju lausn um 10.000. Viðtökur hafa verið afar góðar og umfram væntingar enda eykur hún þjónustu við gesti til muna og sparar umtalsverða vinnu starfsmanna.

Þá hafa sjálfsafgreiðslukassar, þar sem gestir afgreiða sig út sjálfir, verið innleiddir á þessu ári með góðum árangri en um 60% gesta nýttu sér þennan sjálfsafgreiðslu-möguleika þá daga sem opið var.

Undanfarin tvö ár hefur Bláa Lónið undirgengist algjöra umbyltingu á innviðum í upplýsingatækni.

Búið er að uppfæra öll helstu upplýsingatæknikerfi í nýjustu útgáfur.
Innleiðing á heildarlausn frá LS Retail, LS Central, er að mestu afstaðin en áfram heldur verkefnið að straumlínulaga lykilferla í kerfinu og ljúka innleiðingaferli.

Verkefnið mun gjörbylta hraða á stafrænni þróun til hjá Bláa Lóninu til framtíðar. Með tilkomu lausnarinnar er búið að afleggja fjölda annarra kerfa og stuðla að einfaldari rekstri og lægri rekstrarkostnaði þegar horft er til lengri tíma. Eins er kerfið sveigjanlegra hvað varðar nýtt þjónustuframboð og skráningu upplýsinga.

Start typing and press Enter to search