Fordæmalaust ár
„Óvægin ytri skilyrði svo sem vond færð og veður, jarðhræringar og veirufaraldur á heimsvísu litaði allan rekstur félagsins á síðasta ári. „
Covid-19 hafði gríðarleg áhrif á rekstur Bláa Lónsins á síðasta ári, rétt eins og á önnur ferðaþjónustufyrirtæki og efnahagslíf almennt. Gestum í Bláa Lónið fækkaði um 76% á milli ára og tekjur drógust saman um 87% á tímabilinu mars–desember, eða frá því að faraldurinn fór að hafa áhrif.
Í kjölfar reglna yfirvalda um ferðatakmarkanir milli landa og samkomubönn var félaginu gert að loka starfsstöðvum sínum í Svartsengi samtals í um hálft síðasta ár, fyrst frá 26. mars til 19. júní og svo aftur frá 8. október til ársloka.
„Mannauður Bláa Lónsins er dýrmætasta auðlind félagsins“
Mannauður
Bláa Lónið reyndi að bregðast við með ábyrgum hætti í þessu fullkomlega ófyrirséða og fordæmalausa ástandi sem við blasti á vormánuðum. Því reyndist óhjákvæmilegt að segja upp 164 starfsmönnum í mars og í lok maí 402 starfsmönnum til viðbótar vegna þá fyrirséðra aðgerða stjórnvalda um lokun á landamærum og sóttvarnaraðgerða. En með lagaheimild stjórnvalda, var félaginu unnt að semja við 454 starfsmenn um skert starfshlutfall í samræmi við þau markmið að vernda störf í samráði við stjórnvöld.
Með þessu leitaðist Bláa Lónið við að viðhalda vinnusambandi við 602 starfsmenn, enda þótt nálega engin starfsemi hafi verið í fyrirtækinu. Hefði umræddri lagaheimild ekki verið fyrir að fara er einboðið að stjórnendur félagsins hefðu staðið frammi fyrir þeirri erfiðu ákvörðun að segja fleiri starfsmönnum upp störfum á sama tíma og áðurnefndum 164 starfsmönnum fyrirtækisins. Aðgerðir stjórnvalda gerðu félaginu einnig mögulegt að endurráða 237 starfsmenn tímabundið í lok ágúst en þá hafði aukist bjartsýni um að faraldurinn væri í rénun. Því miður var ekki hægt að veita stærstum hluta þessa hóps áframhaldandi ráðningu í lok október þar sem faraldurinn hafði tekið sig upp að nýju.
Öllum þeim sem frá þurftu að hverfa var boðið upp á stuðningssamtöl, ráðgjöf við gerð ferilskráar og ráðgjöf við næstu skref. Jafnframt fengu allir þakkarbréf og gjöf frá Bláa Lóninu fyrir vel unnin störf og er reynt eins og kostur er að viðhalda góðu sambandi við þessa starfsmenn.
Áhersla í upphafi núverandi árs hefur fyrst og fremst verið að halda utan um og hlúa að starfsmannahópnum og viðhalda góðri vinnustaðamenningu fyrirtækisins.
Samhliða viðspyrnu verður lögð áhersla á að gera ráðningarferlið skilvirkara. Innleiðing á nýju stafrænuráðningarkerfi er hafin. Við endurráðningar er horft til þeirra öflugu einstaklinga sem áður störfuðu hjá félaginu enda búa þeir að einstakri þekkingu og reynslu frá fyrri tíð.
„Við höfum verið minnt á tilvist náttúruaflanna á Reykjanesinu”
Jarðhræringar á Reykjanesi
Töluverðar jarðhræringar urðu í janúar 2020 í kringum fjallið Þorbjörn í nágrenni Bláa Lónsins. Þær gengu niður skömmu síðar án áhrifa á starfsemi Bláa Lónsins. Í febrúar á þessu ári hófust þær að nýju, nú fjær Bláa Lóninu eða austan Fagradalsfjalls á Reykjanesi þar sem lítið eldgos hófst þann 19. mars sl. Vísindamenn telja enga hættu stafa af gosinu, hvorki á byggð á höfuðborgarsvæðinu, á Reykjanesi eða á starfsemi Bláa Lónsins. Þeir skjálftar sem orðið hafa við Bláa Lónið eru afleiðing spennubreytinga sem verða fyrir utan kvikuganginn og því ekki um eldgosaóróa að ræða á því svæði.
Byggingar Bláa Lónsins eru sérstaklega hannaðar til að þola stóra jarðskjálfta og mun stærri en þá sem við höfum fundið fyrir og því hafa engar skemmdir orðið á mannvirkjum í þessum hrinum.
Í Bláa Lóninu starfar afar öflugt öryggisteymi sem hefur umsjón með öryggismálum á svæðinu og er í nánu sambandi við Almannavarnir á hverjum tíma. Þá hafa allar öryggisáætlanir félagsins verið virkjaðar og yfirfarnar.