Samfélag

„Bláa Lónið vex með samfélaginu og samfélagið með fyrirtækinu“

Hagræn áhrif Bláa Lónsins eru mikil hvort sem litið er til þjóðarbúsins í heild eða nærsamfélagsins sérstaklega. Þrátt fyrir Covid-19 nam skattspor fyrirtækisins um 2,2 milljörðum kr. árið 2020. Þá nam meðalfjöldi stöðugilda 431 á árinu en lokun landamæra og sóttvarnir gerðu það að verkum að félaginu var gert að loka starfsstöðvum sínum í Svartsengi samtals í um 6 mánuði á síðasta ári. Á sama tíma veitti félagið um 72 milljónum kr. í styrki til samfélagsins og studdi þannig við fjölbreytt verkefni sem snúa meðal annars að íþrótta- og æskulýðsmálum í heimabyggð, sem og menningar-, heilbrigðis- og umhverfismálum almennt.

Bláa Lónið hefur til margra ára boðið Íslendingum upp á húðmeðferðir í lækningaskyni, meðferðargestum og ríkinu að kostnaðarlausu. Til að styðja við fagmennsku á sviði matreiðslu og framreiðslu hefur félagið verið einn af stærri námsstöðum kokka- og þjónanema undanfarin ár en um um 60 fagmenn hafa útskrifast úr matreiðslu- og framleiðslugreinum eftir nám á veitingastöðum Bláa Lónsins. Þá hefur félagið gert samning við Reykjanes Unesco Global Geopark um samstarf Jarðvangsins og sveitarfélaganna fjögurra sem eru innan hans um eftirlit með svæðinu og frekari uppbyggingu á því í anda sjálfbærni.

Rannsóknir og þróun

Áhersla á öflugt rannsóknarstarf hefur einkennt starfsemi Bláa Lónsins allt frá stofnun og er fjöldi vísindagreina sem birtar hafa verið í viðurkenndum vísindatímaritum sem og einkaleyfi fyrirtækisins góður vitnisburður um það. Bláa Lónið vinnur að rannsóknum í samstarfi við vísindamenn innanlands og erlendis, og hefur ætíð átt farsælt samstarf við háskólasamfélagið á sviði rannsókna og þróunar. Frá upphafi hefur fyrirtækið stundað rannsóknir á auðlindinni og aukið þekkingu í þágu samfélagsins. Sem dæmi um rannsóknir má nefna rannsóknir á lækningamætti jarðsjávarins á sóríasis, lífvirkni innihaldsefna jarðsjávarins og rannsóknir á vistkerfi lónsins.

„Fjöldi manns úr atvinnulífinu, sérfræðingar og háskólasamfélagið heimsækja árlega Rannsókna- og þróunarsetrið til að fræðast um jarðvarmaauðlindina, sjálfbæra þróun, vörur og starfsemi fyrirtækisins“

Vísindamenn í Rannsókna- og þróunarsetri Bláa Lónsins vinna markvisst að því að finna nýjar leiðir til að nýta jarðvarmann og strauma hans með sjálfbærum aðferðum, draga úr sóun í öllum ferlum og auka verðmætasköpun. Einstakt dæmi um nýstárlega lausn í sjálfbærri þróun er ræktun örþörunga sem eru eitt af lykilhráefnum Blue Lagoon húðvaranna. Við þörungaræktunina er koltvísýringur frá jarðvarmaveri nýttur til að næra örþörunga sem binda koltvísýringinn og gefa frá sér súrefni. Þannig fer fram kolefnisbinding innan veggja fyrirtækisins.

Uppbygging baðstaða

Bláa Lónið hefur verið virkur þátttakandi í tveimur áhugaverðum verkefnum í íslenskri ferðaþjónustu þar sem horft er til uppbyggingar á áfangastöðum með áherslu á baðupplifun. Annars vegar eru það Fjallaböðin í Þjórsárdal þar sem vorið 2024 er ráðgert að opna baðstað og 40 herbergja hótel í hlíðum Rauðukamba. Um er að ræða einstaka byggingu en stór hluti hennar verður inni í fjallinu með útsýni niður dalinn í suðurátt.

Hins vegar er það uppbygging í Kerlingarfjöllum uppi á miðhálendi Íslands. Fyrsti hluti framkvæmda innifelur nýtt veitinga- og baðhús, ný gistirými og böð, landmótun og endurgerð eldri bygginga. Áætluð verklok eru 2022.

Bláa Lónið tengist báðum verkefnunum í gegnum eignarhald sitt í Íslenskum heilsulindum og svo með beinni aðkomu starfsmanna enda nýtist þekking og reynsla þeirra vel við undirbúning og svo rekstur til frambúðar.

Aðkoma Bláa Lónsins að ferðaþjónustu

Bláa Lónið er virkur þátttakandi í hinum ýmsu samvinnu- og umbótaverkefnum sem stuðla að uppbyggingu íslenskrar ferðaþjónustu, meðal annars á sviði sölu- og kynningarmála, umhverfismála og nýsköpunar. Með þátttöku sinni í þessum verkefnum leggur félagið sitt á vogarskálarnar hvað varðar aukna verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu.

saf-logo-skjoldur
inspired
Íslenski ferðaklasinn

Start typing and press Enter to search