Samfélagsábyrgð

„Við beitum fyrirbyggjandi aðgerðum til að styðja við samfélagið með sjálfbærum hætti.”

Bláa Lónið hefur allt frá stofnun lagt áherslu á samfélagsábyrgð og hefur nálgun Bláa Lónsins að málaflokknum tekið mið af þróun fyrirtækisins og samfélagsins. Samfélagsábyrgð Bláa Lónsins er mikil og víðtæk. Í henni felst m.a. ábyrgð gagnvart náttúru, samfélagi og sjálfbærni.

Samfélagsskýrsla þessi lýsir frammistöðu og fjárhagslegum, samfélagslegum og umhverfislegum áhrifum frá rekstri fyrirtækisins árið 2020 í samræmi við sjálfbærniviðmið Global Reporting Initiative (GRI). Er þetta í annað sinn sem málaflokkurinn er settur upp með þessum hætti í ársskýrslu Bláa Lónsins. Sú fyrri var 2019. Árið 2020 voru áherslur fyrirtækisins í samfélagsábyrgð endurmetin, fleiri árangursvísar voru innleiddir ásamt vegferð fyrirtækisins að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Leiðin að heimsmarkmiðunum

Tími til aðgerða. Árið 2020 hóf Bláa Lónið að skilgreina hvaða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru mikilvægust fyrir fyrirtækið og hvaða markmiðum Bláa Lónið ætti að einbeita sér að næstu 10 árin. Öll heimsmarkmiðin eru mikilvæg Bláa Lóninu, en með þessari vinnu viljum við finna út hvaða markmið fyrirtækið getur haft mestu áhrifin á. Í þeirri vinnu var lagt mikið upp úr því að fá álit starfsfólks og samfélagsins.

Til að fá innlegg starfsfólks var fræðsla um heimsmarkmiðin sett upp á innra neti fyrirtækisins og starfsfólk hvatt til að taka þátt í könnun á því hvaða heimsmarkmið eru mikilvægust fyrir rekstur Bláa Lónsins.

Til að fá álit nærsamfélagsins tók fyrirtækið þátt í vinnustofu með öllum bæjarfélögum á Reykjanesi og nærliggjandi fyrirtækjum til að skilgreina hvaða heimsmarkmið samfélagið ætti að leggja áherslur á. Sú vinna er enn í gangi.

Frekari vinna mun eiga sér stað árið 2021 til að skilgreina markmið fyrirtækisins í kringum heimsmarkmiðin og til hvaða aðgerða fyrirtækið verður að grípa til að ná þeim.

Stefnumörkun – samfélagsábyrgð

stefnumorkun

Í allri starfsemi Bláa Lónsins er lögð áhersla á að skapa umhverfi þar sem allir geta notið sín á öruggan hátt, bæði gestir og starfsfólk. Náttúran er ekki óþrjótandi auðlind og því er sjálfbærni mikilvægur þáttur í rekstri félagsins í góðri sátt og samvinnu við samfélagið. Fyrirtækið stefnir að því að vera fyrirmynd innan ferðaþjónustunnar og veita tiltækan stuðning í samfélagsmálum.

Innan fyrirtækisins er starfandi þverfaglegur hópur í samfélagsábyrgð, með það að markmiði að aðstoða reksturinn við að innleiða megináherslur samfélagsábyrgðar, þróa stefnu í samfélagsmálum og bæta árangursvísa í samfélags- og umhverfismálum. Árið 2020 fundaði hópurinn reglulega til að móta stefnu fyrirtækisins í samfélagslegri ábyrgð.

Hagsmunaaðilar Bláa Lónsins

Árið 2020 voru tekin fjölmörg viðtöl við íslenska gesti Bláa Lónsins til að fá fram hvernig fyrirtækið geti bætt þjónustu og framlag sitt til umhverfis- og samfélagsmála. Á meðal þess sem kom fram var að gestir úr nærliggjandi samfélagi hafa áhuga á sjálfbærni Bláa Lónsins og framlagi þess í samfélagslegri ábyrgð. Meirihluti (89%) þeirra sem tóku þátt þekkti til sjálfbærni og samfélagsábyrgðar, en fáir þeirra (16%) þekktu framlag Bláa Lónsins í þeim efnum, eins og þátttöku í Bleikum október og gjaldfrjálsar psoriasis-meðferðir fyrir sjúkratryggða á Íslandi. Þátttakendur vildu á sama tíma kynnast betur framlagi fyrirtæksins í þessum málum (84%). Flestir lögðu til að Bláa Lónið ætti að bæta upplýsingaflæði um þessa málaflokka og auka vitund almennings um þá.

Samfélagsábyrgð – Árangur og markmið

Markmið 2020

  • Auka enn frekar samskipti við helstu hagsmunaaðila fyrirtækisins.
  • Skoða hvernig Bláa Lónið getur enn frekar aðlagað rekstraráætlanir sínar að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
  • Ráðast í fjölda umbótaverkefna í umhverfismálum og samfélagsmálum til að auðga og betrumbæta rekstur og samfélagsleg tengsl.

Árangur 2020

  • Fyrsta veflæga samfélagsskýrsla Bláa Lónsins aðgengileg á heimasíðu fyrirtækisins.
  • Byrjað var að meta hvaða heimsmarkmið eru mikilvægust fyrir rekstur Bláa Lónsins til næstu 10 ára.
  • Helstu áskoranir kortlagðar og næstu skref skipulögð. Árangursvísar í samfélagsábyrgð skilgreindir. Meiri þátttaka í samfélaginu og samfélagsstefna Bláa Lónsins rituð.

Markmið 2021

  • Innleiða ISO 26000:2010 viðmið fyrir samfélagsábyrgð.
  • Stuðla að fræðslu um sjálfbærni fyrir alla innri hagsmunaaðila.
  • Bjóða fræðslu um sjálfbærni til nærsamfélagsins.
  • Auka upplýsingagjöf um framlag Bláa Lónsins í samfélagsmálum.
  • Skilgreina og innleiða nýtt ferli fyrir umsóknir um samfélagsstyrki.

Markmið 2021 – 2023

  • B-corp vottun – framkvæma þarfagreiningu.
  • Vistferilsgreining (LCA) vara.
  • Endurmeta árangursvísa í samfélagsábyrgð.

Markmið og umbótaverkefni í umhverfismálum

Markmið umhverfismála árið 2021 eru byggð á umhverfisstefnu og sjálfbærniáætlun Bláa Lónsins. Sérstök áhersla er lögð á að draga úr umhverfisspori fyrirtækisins m.t.t. losunar gróðurhúsalofttegunda, úrgangsmála og aukinnar sjálfbærni í rekstri.

Til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda stefnum við að því að bæta við rafhleðslustöðvum bíla og bjóða umhverfisvænni samgöngukosti til og frá vinnu. Við stefnum einnig að því að kolefnisjafna flutning húðvara Bláa Lónsins Heilsuvara ehf. (BLH), frá framleiðslu að dyrum viðskiptavina.

Vegna heimsfaraldurs Covid-19 hafa mörg markmið ársins 2020 hliðrast, sem nær einnig til 2021. Við munum halda sömu markmiðum og fyrri ár og halda áfram að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, prentun pappírs og endurvinnum eins mikið og kostur er á þessum erfiðu tímum.

Til að bæta úrgangsmál fyrirtækisins er stefnt að því að:

  • Innleiða umhverfisstjórnunarkerfi samkvæmt ISO14001:2015 í rekstur Bláa Lónsins og fá það vottað.
  • Draga áfram úr prentun pappírs með rafvæðingu ferla og verklags.
  • Bæta vistvæn innkaup fyrirtækisins í samræmi við ISO14001
  • Hefja vistferilsgreiningu á jarðsjónum og skin care vörum BLH. Verkefninu var frestað um eitt ár vegna Covid-19.
  • Auka áfram flokkun á plasti og senda í endurvinnslu til PureNorth á Íslandi.
  • Draga áfram úr notkun á einnota plasti í upplifun gesta hjá Bláa Lóninu.
  • Auka áfram notkun fjölnota umbúða í stað einnota umbúða í rekstri.

Þessum verkefnum verður fylgt eftir út árið og verður árangur metinn út frá eftirfarandi markmiðum í umhverfismálum árið 2021:

Áherslur í öryggis- og heilsumálum

Segja má að fyrstu mánuðir ársins 2020 hafi einkennst af áður óþekktum aðstæðum og áskorunum í öryggis- og heilsumálum. Jarðhræringar, landris og möguleg kvikusöfnun vestan Þorbjörns og óveður voru í brennidepli í upphafi árs þar til Covid-19 faraldurinn tók við. Í jarðhæringunum hafa áherslur í öryggis- og heilsumálum snúið fyrst og fremst að því að yfirfara og samræma rýmingaráætlanir fyrirtækisins og aðgerðir með öðrum viðbragðsaðilum og í samvinnu við Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Í Covid-19 faraldrinum var stofnuð nefnd innan fyrirtækisins með það hlutverk að bregðast hratt og vel við málum tengdum faraldrinum. Þá var m.a. útbúin viðbragðsáætlun vegna faraldursins, farið í úrbætur á starfsmanna- og gestasvæðum til að bregðast við breyttum reglum samfélagsins og stífum sóttvarnarkröfum, upplýsingum miðlað til starfsfólks á Workplace og boðið upp á fræðslu til að auka skilning og vitund starfsfólks á breyttum aðstæðum.

Unnið verður áfram að heildstæðri öryggishandbók fyrirtækisins og eldvarnaáætlun. Bláa Lónið leggur eftir sem áður áherslu á að styðja við velferð og tryggja sem best öryggi starfsfólks og gesta.

Áherslur í mannauðsmálum

Árið 2020 var krefjandi ár fyrir mannauð fyrirtækisins og reyndi mikið á samstöðu og þrautseigju starfsfólks. Fyrirtækið neyddist til þess að taka þungbærar ákvarðanir til þess að aðlaga reksturinn að breyttum aðstæðum og þurfti fyrirtækið að ráðast í umtalsverðar uppsagnir. Á árinu 2021 verður lögð áhersla á að halda vel utan um og hlúa vel að starfsmannahópnum og viðhalda góðri vinnustaðamenningu fyrirtækisins.

Til að fylgjast með líðan starfsfólks verða vinnustaðagreiningar framkvæmdar örar en áður og farið í þær umbætur sem þurfa þykir hverju sinni með það að markmiði að auka starfsánægju, traust og stolt starfsfólks. Fylgst verður vel með helstu mælikvörðum í mannauðsmálum, þ.e. starfsánægju, veikindahlutfalli og starfsmannaveltu og brugðist við niðurstöðum með viðeigandi aðgerðum eftir því sem þurfa þykir.

Lögð verður áhersla á að gera ráðningarferlið skilvirkara og draga úr ráðningarkostnaði. Innleiðing á nýju ráðningarkerfi er hafin, sem þjónar þeim tilgangi mun betur en það kerfi sem áður var. Við endurráðningar er horft til þeirra einstaklinga sem áður hafa starfað hjá félaginu í þeim tilgangi að nýta þá þekkingu, fræðslu og viðhorf sem það starfsfólk hefur áður öðlast hjá félaginu.

  • Viðhalda starfsánægju og meðmælavísitölu starfsfólks
  • Lækka veikindahlutfall um 1%
  • Lækka raun-starfsmannaveltu um 5%
  • Auka skilvirkni og sjálfvirknivæðingu í ráðningaferli

Start typing and press Enter to search