Matarupplifun á heimsmælikvarða
,,Veitingarekstur Bláa Lónsins byggir á metnaði í matreiðslu, gæðum í hráefnavali og faglegri þjónustu.”
Bláa Lónið hefur lagt mikla áherslu á að ráða til sín fagfólk í fremstu röð á sviði matreiðslu og framreiðslu. Þá hefur félagið verið einn af stærri námsstöðum kokka- og þjónanema undanfarin ár og hafa um 60 fagmenn útskrifast úr matreiðslu- og framleiðslugreinum eftir nám á veitingastöðum Bláa Lónsins frá því 2010. Bláa Lónið rekur þrjá veitingastaði á upplifunarsvæðum sínum, eitt kaffihús auk þess sem framreiddur er morgunverður á Silica Hotel og Retreat Hotel. Þá rekur veitingaeiningin einnig matstofu starfsmanna sem nefnist Bláberið.
Rekstur veitingastaða Bláa Lónsins fór ekki varhluta af lokunum og þeirri óvissu sem ríkti í rekstrarumhverfinu rétt eins og aðrar rekstrareiningar félagsins.
Veitingastöðum Bláa Lónsins var vel tekið af íslenskum gestum og viðbrögðin afar jákvæð varðandi matreiðslu og fagmennsku.
Moss Restaurant
Veitingastaðurinn Moss Restaurant á Retreat Hotel hefur stimplað sig inn sem einn af bestu veitingastöðum landsins. Moss hefur hlotið viðurkenningu hjá Michelin og er sá eini sem hlotið hefur þrjá gafla (e. Forks) hér á landi. Áhersla er lögð á árstíðabundið og ferskt hráefni og einstaka matarupplifun. Mikilvægur þáttur í ferðalagi gestsins er einstakur vínkjallari sem hefur að geyma á bilinu 5.000–6.000 vínflöskur af um 500 mismunandi tegundum. Moss Restaurant hlaut frábærar viðtökur innlendra og erlendra gesta á árinu og framúrskarandi dóma meðal matargagnrýnenda.
Brasserie Lava
Brasserie Lava er ómissandi liður í heimsókn gesta í Bláa Lónið. Staðurinn er rómaður fyrir ferskt hráefni, frábæra matargerð og faglega framreiðslu. Á árinu 2020 snæddi stór hluti lónsgesta á Brasserie Lava. Í lok sumars var farið af stað með bröns um helgar sem mæltist vel fyrir meðal gesta.
Spa Restaurant
Veitingastaðurinn Spa Restaurant var opnaður samhliða opnun Retreat Spa. Hann býður gestum heilsulindarinnar upp á ferska og heilsusamlega rétti auk þess sem þeir geta notið léttra veiga í sérstöku veitingalóni í Retreat Spa. Þá sér Spa Restaurant einnig um morgunmat fyrir hótelgesti á Retreat Hotel og veitingar í móttökusal hótelsins.
Lava Café
Á kaffihúsinu er gestum Bláa Lónsins boðið upp á létta rétti, samlokur, drykki og kaffiveitingar. Áhersla er lögð á gæði og gott hráefni og eru allir réttir útbúnir í köldu eldhúsi á staðnum. Þá rekur Lava Café einnig hinn vinsæla Bláa Lóns-bar þar sem gestir geta fengið sér hressingu úti í lóni.