Helgi Magnússon

„Í stað samfelldrar velgengni og hagnaðarrekstrar allt frá árinu 2011, varð rekstur fyrirtækisins fyrir gífurlegum truflunum vegna veirufaraldursins sem sett hefur stóran hluta heimsbyggðarinnar á annan endann.”

Ágætu hluthafar,

Rekstur Bláa Lónsins á árinu 2020 var með allt öðrum hætti en verið hefur um árabil. Í stað samfelldrar velgengni og hagnaðarrekstrar allt frá árinu 2011, varð rekstur fyrirtækisins fyrir gífurlegum truflunum vegna veirufaraldursins sem sett hefur stóran hluta heimsbyggðarinnar á annan endann.

Þetta ástand leiddi til þess að loka þurfti fyrirtækinu að langmestu leyti í sex mánuði enda ekki um annað að ræða vegna sóttvarnaraðgerða og ráðstafana sem yfirvöld fyrirskipuðu vegna veiruvandans. Erlendir ferðamenn gátu ekki komið til landsins lengst af árið 2020 sem leiddi til þess að þeim fækkaði á árinu úr tveimur milljónum gesta í 479 þúsund gesti. Gestum Bláa Lónsins fækkaði í takt við þetta.

Vegna þessara aðstæðna var ekki um annað að velja hjá Bláa Lóninu en að segja upp stórum hluta starfsmanna þar sem starfsemi fyrirtækisins lá niðri. Í byrjun árs störfuðu um 800 manns hjá félaginu en þeir voru einungis rúmlega eitt hundrað í lok árs. Engu að síður var meðalfjöldi starfsmanna á árinu 2020 431 í stað 726 árið á undan.

Eins og gefur að skilja leiddi þetta ástand til taprekstrar hjá félaginu í stað samfellds hagnaðar síðustu níu rekstrarárin þar á undan. EBITDA tap ársins nam 12,6 milljónum evra í stað hagnaðar árið á undan sem nam 34,3 milljónum evra. Tap ársins eftir skatta nam 20,7 milljónum evra í stað hagnaðar sem nam 21,9 milljónum evra árið á undan.

„Við þessar erfiðu aðstæður hefur öll áhersla stjórnenda fyrirtækisins beinst að því að verja hagsmuni félagsins í stað þess að sækja fram eins og hefur einkennt allt starfið til þessa.”

Við þessar erfiðu aðstæður hefur öll áhersla stjórnenda fyrirtækisins beinst að því að verja hagsmuni félagsins í stað þess að sækja fram eins og hefur einkennt allt starfið til þessa. Bláa Lónið á miklar efnislegar eignir sem þarf að varðveita og verja. Sama gildir um viðskiptavild þess sem er félaginu nánast ómetanleg. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður á árinu 2020 er fjárhagsstaða Bláa Lónsins áfram góð og eiginfjárhlutfall samkvæmt efnahagsreikningi í árslok 2020 er meira en 40% þrátt fyrir fyrrnefnt tap ársins.

Á meðan aðalstarfsemi Bláa Lónsins hefur legið niðri hefur fyrirtækið engu að síður notað tímann til að vinna að ýmsum viðhalds-og umbótaverkefnum sem munu nýtast í rekstrinum þegar starfsemi þess kemst í eðlilegt horf – sem ég vona að geti orðið sem fyrst.

Til viðbótar við þann vanda sem veirufaraldurinn hefur valdið, hafa jarðhræringar á Reykjanesi, í nágrenni við Bláa Lónið, skapað óvissu og óróa. Jarðhræringar gerðu vart við sig nálægt Grindavík í byrjun árs 2020 og stóðu yfir í nokkrar vikur. Jarðhræringa varð svo vart að nýju í lok febrúar á þessu ári, þá helst við Fagradalsfjall. Eldgos hófst þar þann 19. mars sl. Um er að ræða mjög lítið eldgos, hraungos sem hvorki mönnum né mannvirkjum stafar hætta af. Ekki er þó gert ráð fyrir að skjálftavirknin hverfi alveg í bráð en hún hefur þegar minnkað töluvert. Skjálftarnir við Bláa Lónið eru fyrst og fremst afleiðing spennubreytinga sem myndast utan við kvikuganginn og er því ekki talin hætta á eldgosi í námunda við Svartsengi.

„Við erum minnt á tilvist náttúruaflanna á Íslandi sem stjórnendur Bláa Lónsins hafa jafnan gert að umtalsefni á aðalfundum félagsins mörg undanfarin ár”

Við erum minnt á tilvist náttúruaflanna á Íslandi sem stjórnendur Bláa Lónsins hafa jafnan gert að umtalsefni á aðalfundum félagsins mörg undanfarin ár. Við höfum vitað af þeirri ógn sem getur steðjað að okkur vegna jarðhræringa og eldgosa sem ekki er unnt að útiloka á eldfjallaeyjunni Íslandi. Innan fyrirtækisins er ávallt fylgst náið með þróun þessara mála.

Á árinu 2020 reyndi mikið á starfsmenn og stjórnendur Bláa Lónsins vegna þessara óvenjulegu aðstæðna. Þeir hafa allir staðið sig með mikilli prýði. Fyrir hönd stjórnar félagsins færi ég þeim bestu þakkir. Jafnframt þakka ég samstjórnarmönnum mínum í stjórn Bláa Lónsins ánægjulegt samstarf og góða samstöðu við erfiðar aðstæður.

Von okkar allra er að félagið komist sem fyrst út úr þessum mótbyr og geti hafist til fyrri styrks áður en langt um líður.

Start typing and press Enter to search