Undur veraldar í handhægum umbúðum

„Í verslunum Bláa Lónsins er lögð höfuðáhersla á upplifun gestsins með framúrskarandi þjónustu.

Verslanir í Svartsengi, Flugstöð og á Laugavegi

Bláa Lónið rak á árinu verslanir í Svartsengi, á Laugavegi og í Flugstöð Leifs Eiríkssonar auk öflugrar vefverslunar.

Árið 2020 fór vel af stað í verslunum Bláa Lónsins. Þær lokuðu þó 26. mars rétt eins og aðrar rekstrareiningar Bláa Lónsins og hrun í fjölda farþega um Flugstöð Leifs Eiríkssonar hafði mikil áhrif á rekstur verslunarinnar þar.

Eftir enduropnun Bláa Lónsins og tilslakanir stjórnvalda jókst salan jafnt og þétt yfir sumarið í öllum verslunum. Salan í verslunum á Laugavegi og í Bláa Lóninu gekk vel og nýr markhópur sem samanstóð fyrst og fremst af Íslendingum og ferðamönnum frá Skandinavíu tók húðvörum Bláa Lónsins opnum örmum enda um einstakar vörur að ræða á heimsvísu.

Vefverslunin gekk afar vel á árinu og er vöxtur mikill á milli ára en sérstök áhersla var á árinu á aukinn sýnileika og aðlagað vöruframboð.

Verslun Bláa Lónsins í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hlaut þjónustuverðlaun flugstöðvarinnar fyrir árið 2019–2020. ISAVIA hefur á undanförnum árum veitt einum rekstraraðila verslana og veitinga í flugstöðinni verðlaun fyrir framúrskarandi þjónustu. Niðurstaðan byggir á markaðsrannsóknum og könnunum sem gerðar eru meðal farþega sem fara í gegnum flugstöðina.

Bláa Lónið ákvað að opna tvær pop-up verslanir fyrir jólin og var markmiðið að nýta góðan meðbyr eftir sumarið og ná enn betur til íslenskra viðskiptavina og bjóða þeim bæði húðvörur og upplifanir í jólapakkann. Verslanirnar voru staðsettar á Hafnartorgi og í Smáralind og hannaðar í anda Bláa Lónsins. Verslanirnar fengu frábærar viðtökur og var ánægjulegt að sjá hvað sala á upplifunum gekk vel. Reynslan af opnun verslunarinnar í Smáralind sýndi að Íslendingar hafa mikinn áhuga á þeim vörum og upplifunum sem Bláa Lónið hefur upp á að bjóða og því var ákveðið að leita hófanna með verslunarhúsnæði í Smáralind og Kringlunni. Niðurstaðan var sú að Bláa Lónið mun opna nýja verslun í Kringlunni í byrjun apríl 2021 og ná þannig enn betri nálægð við íslenska markaðinn en áður.

Start typing and press Enter to search