Heimamarkaðurinn

 „13% þjóðarinnar nýtti sér sumargjöf Bláa Lónsins“

Þrátt fyrir miklar áskoranir í rekstri og þungbærar ákvarðanir varðandi mannauð félagsins var tekin ákvörðun um að halda úti starfsemi á upplifunarsvæðum Bláa Lónsins sumarið 2020 og leggja áherslu á að bjóða íslenskum gestum að upplifa einstaka gestrisni og þjónustu starfsmanna Bláa Lónsins. Þetta var ekki sjálfsagt mál þar sem fjölmargir starfsmenn voru að vinna uppsagnarfrest sinn. En langflestir þeirra voru tilbúnir að taka slaginn með félaginu og sýndu magnaðan teymisanda og unnu að heilindum að því að gera heimsókn gesta í Bláa Lónið ógleymanlega.

Áherslur í markaðsmálum

Áherslur í markaðsmálum félagsins snéru fyrst og fremst að heimamarkaðnum en þó var lögð áhersla á almenna vitundar-markaðssetningu á erlendum mörkuðum. Í því sambandi var framleitt sérstakt efni til að styðja við áherslur. Var það keyrt á samfélagsmiðlum á mismunandi mörkuðum við góðan orðstír og voru viðbrögð sterk. Við metum það svo að þegar að viðspyrnunni kemur muni Ísland og Bláa Lónið njóta mikillar velgengni á erlendum lykilmörkuðum.

Á innlenda markaðnum var lögð sérstök áhersla á að bjóða Íslendingum að njóta alls þess sem Bláa Lónið hefur upp á að bjóða. Þannig var öllum Íslendingum, 14 ára og eldri, gefin Sumargjöf Bláa Lónsins sem var 5.000 kr. inneign upp í Premium-aðgang í Bláa Lónið en frítt var fyrir 13 ára og yngri. Mæltist gjöfin vel fyrir og það kom skemmtilega á óvart hversu margir voru spenntir að sækja Bláa Lónið heim en um 13% þjóðarinnar nýttu sér gjöfina.

Það má segja að Bláa Lónið hafi endurnýjað kynni sín við íslenska markaðinn á árinu. Það var gott að geta tekið á móti íslenskum gestum í auknum mæli og að finna fyrir aukinni jákvæðni þeirra í garð félagsins sem m.a. sýndi sig á fjölda mynda sem gestir deildu á samfélagsmiðlum. Þá sýna viðhorfskannanir Maskínu, sem framkvæmdar voru í júní og svo aftur í september 2020, marktæka jákvæða þróun hvað varðar viðhorf Íslendinga til félagsins. Nam aukningin 12% á milli kannana.

„Það er markmið Bláa Lónsins að styrkja enn frekar samband sitt við heimamarkaðinn á komandi árum“

25 ára afmæli fagnað

Silica Mud Mask er sú húðvara sem fyrst kom á markað undir merkjum Bláa Lónsins. Í dag eru vörulínurnar þrjár og vörutegundir 32. Silica maskinn hefur verið einkennisvara húðvaranna allar götur síðan. Í tilefni af 25 ára afmæli Silica Mud Mask á árinu var Íslendingum boðinn hann í sérstakri afmælisútgáfu í sumar. Mæltist hún afar vel fyrir en seldar voru yfir 4.000 einingar á 9 vikna tímabili. Starfsmenn Bláa Lónsins fengu allir maskann að gjöf í tilefni afmælisins.

Vöruþróun

Á sama tíma og Íslendingum fjölgaði í Bláa Lóninu var horft til þess að koma í auknum mæli til móts við þá með aðlöguðu vöruframboði. Í því samhengi má nefna sölu á gjafabréfum og ýmiss konar tilbúnum pökkum. Sérstök áhersla var lögð á markaðssetningu slíkra pakka fyrir síðustu jól undir yfirskriftinni „Gefðu vellíðan um jólin“ og reyndust þeir vinsælir undir jólatrjám landsmanna.

heilsudagar-1

Heilsudagar í Bláa Lóninu

Á árinu voru fyrstu skrefin stigin hvað varðar að bjóða upp á dvöl í Bláa Lóninu þar sem áhersla er lögð á heildstætt prógramm með áherslu á endurnæringu á líkama og sál, jóga, heilbrigt mataræði, slökun og svefn. Áhugi og hrifning gesta leyndi sér ekki. Það má segja að þetta hafi markað upphafið að „wellbeing retreat“ framboði Bláa Lónsins. Í framhaldinu voru þróaðar sérstakar ferðir í samstarfi við Önnu Eiríksdóttur, einkaþjálfara hjá Hreyfingu, sem hafa mælst mjög vel fyrir og verið uppselt í þær til þessa.

gjafabref

Gjafabréf og pakkar

Þróun á gjafabréfum hvers konar og pökkum, þar sem mismunandi upplifanir í Bláa Lóninu voru seldar sem ein heild mæltist vel fyrir. Sú reynsla og þekking sem hlaust á þessum tíma mun nýtast vel til frekari vöruþróunar í tengslum við mismunandi markhópa.

heimad

Heimadekurpakkar

Á þeim tímum þegar Íslendingar komust ekki til okkar í Bláa Lónið var ákveðið að koma með Bláa Lónið til þeirra með því að setja á markað svokallaða heimadekurpakka. Markmiðið var að hvetja landsmenn til að njóta spa-upplifunar lónsins heima við. Þessir pakkar mæltust mjög vel fyrir og er enn verið að selja þá í vefverslun okkar og verslunum.

mondlur2

Moss sælkeralína

Samhliða opnun „pop-up“ verslana okkar fyrir jólin voru svonefndar Moss sælkeravörur settar á markað. Um er að ræða einstakt handverk frá matreiðslumeisturum Moss, veitingastaðar Bláa Lónsins á Retreat. Reyndust þær mjög góð viðbót við vöruúrval verslana okkar sem jók upplifun gesta okkar og kitlaði skynfærin. Samtals var um fimm nýjar vörur að ræða: súkkulaðihjúpaðar möndlur, hvíthjúpaður lakkrís, súkkulaðiplötur sem og jurtate og flögusalt sem innihalda nærandi efni sem unnin eru úr jarðsjó Bláa Lónsins.

handsprit

Handspritt

Bláa Lónið brást við aukinni eftirspurn eftir handspritti í ljósi faraldursins og setti á markað „Hand Sanitizer“ í tveimur stærðum í desember síðastliðnum. Um er að ræða einstaka vöru með mýkjandi olíu og ljúfum ilm Bláa Lónsins. Á sama tíma og hann sótthreinsar, nærir hann og kemur í veg fyrir þurrar hendur.

Á árinu hófum við sölu á áfyllingum á Hand Wash og Hand Lotion með umhverfisvernd og samfélagsábyrgð í huga. Hafa viðskiptavinir okkar tekið þessari nýjung afar vel sem er hvetjandi og eflandi fyrir framhaldið.

ponsjo

Farmers Market X Blue Lagoon

Á árinu 2020 hannaði Bergþóra Guðnadóttir, hönnuður og eigandi Farmers Market, sérstaka ponsjó-línu í samstarfi við Bláa Lónið sem kynnt var á HönnunarMars. Línan er innblásin af hinum mögnuðu litum sem er að finna í lóninu sjálfu og nánasta umhverfi þess; í hrauninu, kísilnum, mosanum og jarðsjónum. Þá var hugmyndin einnig að endurspegla þá liti sem birtast gestum úr herbergjum Retreat en þeir eru ólíkir eftir því hvert herbergin snúa. Þau eru því bæði til í steingráum lit sem tengist hrauninu í kringum lónið og blátóna sem minnir á lónið sjálft. Munstrið er undir áhrifum frá okkar norræna prjónaarfi sem og stíl sem oft er kenndur við Friðareyju eða Fair isle knit. Rangan myndar svo nokkurs konar „tweed“ sem við köllum einfaldlega „lava tweed“ þar sem litir lónsins og umhverfisins blandast saman. Línan er seld í verslun Bláa Lónsins sem og í verslunum Farmers Market. Þá er hún aðgengileg á öllum herbergjum Retreat hótelsins.

Start typing and press Enter to search